top of page
Sigurjón Pálsson designer and author

Sigurjón Pálsson, hönnuður, útskrifaðist frá The Royal Danish Academy - Architecture, Design, Conservation í Kaupmannahöfn. Hann hefur síðan stundað hönnun og hönnunartengd störf og húsgögn eftir hann verið framleidd á Íslandi, í Þýskalandi og víðar í Evrópu. Sigurjón hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun og nokkrum sinnum verið tilnefndur til menningarverðlauna DV. Auk hönnunarinnar hefur Sigurjón reynt fyrir sér við spennusagnaskrif og hlaut Blóðdropann 2012, fyrir besta krimma ársins á Íslandi. Hönnunar- og framleiðslufyrirtæki hans og Páls Þórs, sonar hans, Path ehf., starfar náið með hönnunarhúsinu Epal hf. og fleiri hönnunarfyrirtæki og stofur eru meðal viðskiptavina fyrirtækis þeirra. Undir stjórn Páls Þórs framleiðir Path fjölda ferðamannatengdra hönnunargripa eins og Epal-lundann sem mun nú vera einn vinsælasti minjagripur Íslands, og Epal sér um dreifingu á. Þekktasta hönnun Sigurjóns er þó án vafa tréfuglaserían Shorebirds sem upphaflega var hönnuð fyrir gamlan smið í heimabæ Sigurjóns, Húsavík, og rennibekkinn hans – eins og sjá má á formi fuglanna. Smiðurinn hafði lokið starfsævinni en vantaði eitthvað til að dunda við á verkstæðinu sínu og til að selja á handverksmarkaði bæjarins. Eigandi Danska hönnunarrisans Normann Copenhagen sá fuglana áður en af því varð, féll fyrir þeim og falaðist eftir til framleiðslu – og fékk, með fullu samþykki smiðsins. Vaðfuglar Sigurjóns hafa síðan verið með söluhæstu vörum NC frá upphafi og salan á heimsvísu óðum að nálgast milljón eintaka múrinn. Shorebirdas hafa nú öðlast sess sem einskonar íkon fyrir Normann Copenhagen.

bottom of page