top of page
Anna Dilja icelandic designer

Úthöfin skipta sköpum fyrir jörðina. Þau hjálpa til við að stjórna kolefnishringrásinni á heimsvísu, styðja við vistkerfi og veita samfélögum manna lífsviðurværi. En jafnvæginu sem höfin hafa búið við hingað til er nú ógnað. Anna Diljá Sigurðardóttir hönnuður hefur á sínum ferli gert verk í kringum þessi málefni, þar sem hún stuðlar að mikilvægi samtals og samstarfs milli geira, þar á meðal lista og vísinda.  

 
 

Á fyrirlestrinum 'Höf á tímamótum' / 'Oceans in transformation' gefur Anna innsýn inn í verkferla á bakvið hönnunarrannsóknir og samstarfsaðferðir, þar sem hún sýnir verkin 'The Rare Metal Age' (2019) og 'Terabytes Per Second' (2020). Verkin fjalla um námuvinnslu og innviði sem finna má á djúpsævi, í þeim er greint frá margvíslegum rannsóknum og framtíðarhorfur hafsins skoðaðar með linsu lista og vísinda. Í verkunum er flækja iðnaðar, stjórnmála, hagfræði og menningar sett fram á sjónrænan hátt —  fortíð hafsins og framtíð sett í samhengi við (of)nýtingu mannsins á hafinu. 
 
 

Anna Diljá Sigurðardóttir er hönnuður, búsett milli Íslands og Hollands. Hún er menntaður hönnuður frá Design Academy Eindhoven og hefur síðan starfað í Hollandi, Þýskalandi og á Íslandi. Anna vinnur sem sjálfstæður hönnuður sem sérhæfir sig í listrannsóknum og upplýsingahönnun. Samsíða því hefur hún kennt nemendum við Listaháskóla Íslands og Design Academy Eindhoven. Frá og með árinu 2014 hefur Anna átt samstarf við hinar ýmsu vísindastofnanir: Royal Netherlands Institute for Sea Research og Háskólann í Wageningen í Hollandi, British Telecommunication, Subcom LLC og TeleGeography í Englandi, Háskóla Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofu Íslands. Verkum hennar hafa verið miðlað og þau sýnd víða í Evrópu. Viðfangsefni hennar spanna jarðvísindi, loftslagsbreytingar, landfræðipólitík og kortlagningu kerfa. Hún notast við ýmsa miðla svo sem myndræna frásögn, hreyfimyndir, texta og skúlptúrverk til að setja fram flókin vísindaleg gögn og snúin málefni á auðskiljanlegan máta. 

bottom of page